MMR hefur birt niðurstöður úr könnun um viðhorf Íslendinga til lóðaúthlutunar til trúfélaga.

Samkvæmt niðurstöðunum sögðust flestir vera andvígir því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitarfélögum. Sögðust 51,8% þeirra sem tóku afstöðu vera mjög andvígir og fjölgar þeim frá síðustu mælingu, en hlutfallið var 45,5% í september 2013. Í heild voru 74% þeirra sem tóku afstöðu andvíg úhlutun ókeypis lóða til trúfélaga.

Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 8,1% vera frekar eða mjög fylgjandi slíkri lóðaúthlutun, borið saman við 10% í september 2013.

Þeir sem sögðust styðja Samfylkinguna voru í nokkrum sérflokki hvað varðar afstöðu til úthlutun ókeypis lóða til trúfélaga. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Samfylkinguna sögðust 21,0% vera fylgjandi því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitafélögum. Til samanburðar sögðust 4,1% Framsóknarfólks vera fylgjandi því að trúfélögum sé úthlutað ókeypis lóðum hjá sveitafélögum.