Viðsnúningur varð hjá fyrirtækjum Icelandair Group á sviði ferðaþjónustu. Innan þessa sviðs starfa fyrirtækin Flugfélag Íslands, Icelandair Hotels og Iceland Travel. Heildarvelta þessara fyrirtækja var 8,7 milljarðar og EBITDA var 1,086 milljarður króna.


Farþegar Flugfélags Íslands voru 372.745 og fjölgaði 7,4 % milli ára. Reksturinn skilar  góðum hagnaði fimmta árið í röð. Verulegur viðsnúningur varð hjá Icelandair Hotels og  Iceland Travel, en rekstur þessara félaga hefur verið erfiður undanfarin ár.

Herbergjanýting hækkaði umtalsvert, og veitingatekjur jukust verulega. Eftir mikla  endurnýjun undanfarin ár, var nú starfsemi Hótel Nordica með að fullu allt árið segir í fréttatilkynningu Icelandair Group.


Starfsmenn félagsins hafa unnið gott starf við að auka tekjur, gestum hefur fjölgað og  ráðstefnuhald er í góðum höndum. Starfsemi Iceland Travel var endurskipulögð frá grunni, og m.a. var söluskrifstofum erlendis lokað. Þessar breytingar hafa haft mjög jákvæð áhrif á afkomu félagsins.


Jón Karl Ólafsson: ?Það er mjög ánægjulegt að sjá þann mikla viðsnúning sem varð á rekstri Icelandair Hotels og Iceland Travel á árinu, eftir nokkur erfið ár í rekstri þeirra félaga. Rekstur Flugfélags Íslands hefur áfram gengið vel og er ánægjulegt að sjá vöxt á nær öllum flugleiðum innanlands. Við sjáum fram á áframhaldandi góðan rekstur allra þessara fyrirtækja með áframhaldandi fjölgun ferðamanna og umsvifum í atvinnulífinu víða um land?.