Þrír af hverjum fjórum stjórnendum í íslenskum fyrirtækjum eru mjög eða frekar sammála því að taka ætti upp erlendan gjaldmiðil á Íslandi, í stað íslensku krónunnar. Þetta kemur fram í nýrri könnun Miðlunar og Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækin hafa hafið samstarf um stuttar kannanir sem gerðar eru meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja undir yfirheitinu Stjórnendastika Viðskiptablaðsins og Miðlunar. Könnunin var send út til 1.500 stjórnenda hinn 27. mars og bárust 518 svör fram til 16. apríl.

445 stjórnendur svöruðu spurningunni hvort taka ætti upp erlendan gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar. Þar af kvaðst 191 vera því mjög sammála, eða 43%; 138 (31%) voru frekar sammála, 62 (13,9%) frekar ósammála og 54 (12,1%) mjög ósammála.

Aðspurður sagðist yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda vera mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að íslensk fyrirtæki, þar með talin fjármálafyrirtæki, ættu að hafa þann möguleika að hafa hlutafé og gera upp í erlendri mynt. 88,7% voru frekar eða mjög sammála því að fyrirtæki ættu að geta fært hlutafé sitt í erlendri mynt og 88,7% að þau ættu að hafa möguleika á að hafa uppgjör í erlendri mynt.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .