Mikill hagvöxtur er í landinu um þessar mundir. Hagvöxtur mældist 7,4% á þriðja ársfjórðungi og þarf að fara aftur til fyrsta ársfjórðungs 2001 til að finna meiri hagvöxt. Hagvöxtur hefur verið mikill að undanförnu eða að meðaltali 5,6% þegar litið er til síðustu fjögurra ársfjórðunga. Það er mikill vöxtur og meiri en mælist um þessar mundir í helstu viðskiptalöndum
Hagvaxtartölur fyrir þriðja ársfjórðung eru bráðabirgðatölur.

Þannig birti Hagstofan nú endurskoðaðar tölur fyrir hagvöxt á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs og var niðurstaðan sú að hagvöxtur fyrsta ársfjórðungs minnkar úr 4,6% niður í 4,2% og úr 6,4% á öðrum ársfjórðungi niður í 5,9%. Þetta er samanlagt tæpu prósentustigi minni hagvöxtur og ber breytingin með sér þann fyrirvara sem verður að hafa á hagvaxtartölum fyrir þriðja ársfjórðung.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að áhugavert er að útflutningur dreif hagvöxtinn áfram á þriðja ársfjórðungi en hann jókst um 11%. Ekki hefur mælst jafn mikill vöxtur í útflutningi síðan á öðrum ársfjórðungi 2002. "Þessi mikli vöxtur útflutnings er jákvæður og kemur á óvart í ljósi efnahagsframvindunnar sem hefur ekki verið útflutningsatvinnuvegunum í vil. Einkaneysla vex áfram hratt sem og fjármunamyndun en vöxtur þessara stærða beggja minnkar nokkuð frá því sem verið hefur síðasta árið eða svo.

Hagvaxtarhorfur eru góðar um þessar mundir og almennt er gert ráð fyrir frekari vexti á næstu tveimur árum. Ef tekið er meðaltalið af spá Fjármálaráðuneytisins, Seðlabankans, OECD og Greiningar ÍSB þá er það 5,2% fyrir næsta ár og 4,7% fyrir árið 2006," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.