Næstum þrír af hverjum fjórum sem tóku afstöðu segjast styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þegar stuðningur við ríkisstjórnir er skoðaður aftur til 1995 hafði aðeins ein ríkisstjórn meiri stuðning í upphafi stjórnartíðar sinnar. Þetta var ríkisstjórn Geirs H. Haarde sem mynduð var í lok maí 2007 en hún naut stuðnings 76-83% kjósenda fram í janúar 2008. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar náði svo um 75% stuðningi í ágúst 1999, skömmu eftir kosningar.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup .

Litlar breytingar eru á fylgi flokka frá síðasta Þjóðarpúlsi og breytist fylgi þeirra um á bilinu 0,3 - 1,5 prósentustig. Liðlega 25% segjast nú myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 17% Vinstri græn, tæplega 16% Samfylkinguna, nær 12% Framsóknarflokkinn, liðlega 10% Pírata, tæplega 7% Viðreisn, næstum 6% Miðflokkinn, rösklega 5% Flokk fólksins og ríflega 2% aðra flokka, þar af rúmlega 1% Bjarta framtíð.

Tæplega 7% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og 5% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.