Tjón Landsnets vegna óveðursins nemur um 120 milljónum króna, þar af voru um 90 milljónir á Vestfjörðum. Um 80 milljónir eru vegna viðgerðarkostnaðar, þar af eru 60 milljónir vegna tjóns á Vestfjörðum, en tæplega 40 milljónir vegna framleiðslu varafls með dísilvélum. Þar er hlutur varaaflsstöðvar Landsnets á Vestfjörðum langstærstur, eða um 30 milljónir króna, sem er aðallega olíukostnaður.

Alls brotnuðu 30 möstur í í flutningskerfi Landsnets vegna vindálags og ísingar í fárviðrinu í byrjun vikunnar. Mest var tjónið á Vestfjörðum þar sem 21 mastur gaf sig.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets segir að brýnt sé að hefjast handa við styrkingu meginflutningskerfis Landsnets. Styrkja þarf tengingar milli landshluta og fjölda flutningslínum sem þola betur verðurálag:

„Það er afar líklegt að notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í óveðrinu á mánudagskvöld og aðfararnótt þriðjudags ef styrkingar og endurbætur á flutningskerfinu hefðu verið komnar til framkvæmda. Það voru eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust. Stærri línurnar okkar, sem eru bæði nýrri og með stálgrindarmöstrum, stóðust veðurálagið eins og til dæmis á Hallormsstaðarhálsi þar sem vindstyrkurinn fór yfir 72 metra á sekúndu í hviðum,“