Atvinnuleysi í júlí var 7,5% en að meðaltali voru 12.569 manns atvinnulausir í mánuðinum. Atvinnuleysi minnkaði um 3,2% frá fyrri mánuði, eða um 419 manns að meðaltali. Atvinnuleysi var mest í febrúar og mars á þessu ári og mældist þá 9,3%.

Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 437 í júlí, eða um 5,9% að meðaltali. Konum fjölgaði hinsvegar um 18 að meðaltali. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er 8,5% en 5,8% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum, 11,7%. Á Norðurlandi vestra er atvinuleysið minnst, eða 2,5%. Meðal karla er atvinnuleysi 7,4% og 7,5% meðal kvenna.

Lausum störfum fjölgaði

Í tilkynningu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í júlí segir að alls hafi 387 laus störf verið hjá Vinnumálastofnun í lok júlí. Er það fjölgun um 48 störf frá því í júní. Flest eru störfin fyrir starfsmenn í þjónustustörfum, eða 129 talsins. Þá voru 119 laus störf fyrir sérhæft verkafólk og 66 störf fyrir iðnaðarmenn.