Eigendur séreignasparnaðar hafa frá því að heimilað var að sækja um sérstaka útgreiðslu séreignasparnaðar í mars árið 2009 tekið út samtals um 75 milljarða króna. Heimildin til að sækja um slíka úttekt rennur út næstkomandi sunnudag, 30. september.  Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

13 milljarðar króna voru teknir út á fyrstu sex mánuðum þessa árs en 62 milljarðar á árunum 2009-2011. Hæsta fjárhæðin var tekin út árið 2011 eða um 23,6 milljarðar. Á árinu 2009 var upphæðin 21,7 milljarðar og 16,5 milljarðar á árinu 2010. Langflestir notfærðu sér þessa heimild á fyrsta árinu, 2009, eða 40.744 skv. framtölum. Þeir voru 30.481 á árinu 2010 og 25.716 í fyrra en þá var búið að hækka leyfilega hámarksfjárhæð sem taka mátti út.

Þó landsmenn hafi í miklum mæli tekið út af séreignasparnaði sínum hefur séreignasparnaður eftir sem áður aukist. Skv. skýrslu Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóðina jókst séreignasparnaðurinn um rúma 27 milljarða 2011.