Gert er ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári vegna samnings við hina norsku Evu Joly, fyrrverandi saksóknara frá Frakklandi, nemi 75 milljónum króna. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010.

Þar kemur fram að fjárheimild til embættis sérstaks saksóknara verði 275 milljónir á næsta ári, en inni í þeirri tölu, eru útgjöldin vegna samningsins við Joly.

Gert er ráð fyrir því að starfsmenn embættis sérstaks saksóknara verði sextán en auk þess stendur til að ráða nú í byrjun mánaðar þrjá sjálfstæða saksóknara til embættisins.

Áætluð útgjöld vegna þeirra á næsta ári nema 30 milljónum króna.

Verkefni embættis sérstaks saksóknara felst í því að rannsaka og eftir atvikum ákæra í málum er varða bankahrunið.