Um 75% munur getur verið á fermetraverði íbúða á höfuðborgarsvæðinu eftir hverfum. Hagdeild Landsbankans segir að á árinu 2013 hafi hæsta fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu verið 336 þúsund krónur í miðborg Reykjavíkur og það lægsta 193 þúsund krónur á Vöngum í Hafnarfirði. Þarna á milli er 75% munur og hann hefur aldrei verið meiri.

„Sé litið á næstu hverfi eru miðlæg svæði í Reykjavík, Garðabær og Seltjarnarnes líka hlutfallslega nokkuð dýr. Garðabær kemur mjög sterkur inn hvað varðar hækkun verðs á árinu 2013 frá árinu áður. Meðalhækkun allra hverfa á höfuðborgarsvæðinu var í kringum 8% og miðborgin sjálf er rétt fyrir ofan þá tölu. Hækkunin í Garðabæ milli 2012 og 2013 nam hins vegar tvöfaldri meðalhækkun allra hverfanna á því tímabili. Minnsta hækkunin í hverfum á þessum sama tíma var hins vegar í kringum 1%,“ segir í tilkynningunni.

Svo virðist sem þróun undanfarinna tveggja ára sé farin að minna dálítið á árin 2004-2006, þegar verðmunur á milli dýrustu og ódýrustu hverfa jókst töluvert.