Tekjur Norðursiglingar hf., sem rekur meðal annars hvalaskoðun á Húsavík, námu 171 milljón króna í fyrra samanborið við 658 milljónir króna á árinu áður. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rekstrartap fyrir afskriftir (EBITDA) nam 45 þúsund krónum en tap fyrirtækisins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam 144 milljónum króna.

Fyrirtækið hefur glímt við áskoranir tengdar heimsfaraldrinum sem setti mark sitt á afkomu ársins. Fyrirtækið nýtti sér úrræði stjórnvalda á tímabilinu og greip til víðtækra hagræðingaraðgerða eins og eignasölu, uppsagna, fjárhagslegrar endurskipulagningar og frestunar afborgana á skuldum.

Í byrjun þessa árs seldi fyrirtækið 29% hlut sinn í Sjóböðunum á Húsavík (GeoSea) og mun salan hafa jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins á þessu ári Þá benda bókanir og fyrirspurnir til þess að rekstrarumhverfi Norðursiglingar verði mun hagfelldara á næstunni. Stjórnendur gera ráð fyrir að afkoma fyrirtækisins batni strax á þessu ári og hagnaður verði af rekstrinum á næsta ári.

Eignir Norðursiglingar námu rúmlega 1,4 milljörðum króna í árslok 2020 og var eigið fé rúmlega 140 milljónir, sem er töluverð lækkun frá árinu áður. Launakostnaður fyrirtækisins dróst verulega saman og nam 72 milljónum, samanborið við 258 milljónir árið áður, en stöðugildum fækkaði um helming á tímabilinu eða úr 30,5 í 14.

Stærsti hluthafi Norðursiglingar með 43,3% hlut er Eldey eignarhaldsfélag, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustufyrirtækjum. Næst stærsti hluthafi félagsins er Hörður Sigurbjarnarson sem á 25% hlut.