Ásgeir Pálsson.
Ásgeir Pálsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri ISAVIA ANS, dótturfélags ISAVIA sem sinnir flugumferðarstjórn og aðra þætti flugleiðsöguþjónustu á flugstjórnarsvæði Íslands, segir að félagið hafi staðið í viðræðum við Félag íslenskra flugumferðarstjóra um lausn á málum þeirra 100 flugumferðarstjóra hjá félaginu sem sagt var upp í dag. Í heildina starfa um 300 manns hjá ISAVIA ANS.

Eins og sagt var frá í fréttum verða flugumferðarstjórar félagsins færðir niður í 75% starf , með óbreyttum launakjörum, en tekjur félagsins hafa verið um 10 til 20% af því sem venjulega gerist á þessum tíma árs vegna minnkandi flugumferðar til og frá og yfir landið.

„Við teljum þetta mjög mjúka leið miðað við það að fara í uppsagnir og slíta ráðningarsamningi við stóran hóp, það hlýtur að vera betra fyrir fólk að vinna 75%, og fá 75% laun. Eina sem við breytum er vinnuframlagið, það er öllum boðið nýr ráðningarsamningur með starfshlutfalli sem er að lágmarki 75%," segir Ásgeir sem segir að leitað hafi verið sátta við FÍF um lausnir á stöðunni sem skapast hefur vegna minnkandi tekna.

„Við höfum staðið í viðræðum við stéttarfélag flugumferðarstjóra um leiðir, það hefur alveg verið skilningur á ástandinu og allt svoleiðis, en aftur á móti, þá höfum við ekki komist niður á neina eina lausn á málum, og að lokum tók stjórn félagsins ákvörðun um málið."

Óssamála FÍF um viðræður um lausnir

Haft er eftir Arnari Hjálmssyni formanni FÍF á Vísi að þessi leið hafi komið á óvart, því félagið hafi sagst tilbúið til að leysa vandann, en engar eiginlegar viðræður um lausn átt sér stað utan þess að FÍF hafi hafnað lausnartillögu ISAVIA ANS sem ekki svarað hugmyndum stéttarfélagsins um lausnir.

„Það voru fundir með stéttarfélaginu, en það komu engar ákveðnar tillögur frá því um lausn á málunum,“ segir Ásgeir.

Spurður hví ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr segir Ásgeir að félagið hafi þegar farið í gegnum aðrar deildir og svið hjá félaginu sem hafi leitt til uppsagna á 10 manns síðustu mánuði auk annarra sparnaðaraðgerða.

„Við höfum dregið saman kostnað á öllum sviðum, verið með uppsagnir í flugfjarskiptum, ekki ráðið í stöður og stöðvað verkefni sem verið hafa í gangi. Áhrifin af minnkun flugumferðar eru hins vegar mest í flugstjórnarsalnum sjálfum, en tæknibúnaðurinn og þau kerfi sem þarf að nota þurfa að vera í lagi sama hversu mikil eða lítil umferðin er," segir Ásgeir.

„Félagið fær ekkert framlag frá ríkinu heldur er þessi þjónusta fjármögnuð með flugleiðsögugjöldum sem eru innheimt af þeim flugum sem eru að fljúga hér í gegn. Það koma greiðslur á 10 daga fresti sem eru innheimtar í pundum af bresku flugleiðsögufyrirtæki, og þær síðan sendar hingað. Umferðin núna er bara 10 til 20% af því sem hún ætti að vera á þessum tíma svo tekjurnar eru bara 10 til 20% af því sem þær ættu að vera. Við erum að vonast eftir að við verðum komnir í 60% í október, en það er mjög erfitt að spá um þetta en ég vona að við getum verið komnir með alla í 100% starf aftur næsta vor."

„Auðvitað er alveg nægur mannsskapur“

Ásgeir segir aðspurður að 75% vinnuskylda verði á flugumferðarstjórunum þó verkefnastaðan verði minni. „Auðvitað er alveg nægur mannskapur miðað við þetta, en vaktirnar verða settar upp þannig að við nýtum mannsskapinn í 75%. Við munum svo trappa upp í hærra hlutfall þegar umferðin eykst," segir Ásgeir sem segir félagið ekki hafa fullnýtt starfsfólkið undanfarið líkt og víðar hafi gerst í samfélaginu.

„Við vorum auðvitað í ákveðnu ferli meðan samkomubannið og sóttkvíarnar stóðu sem hæst og þá skiptum við niður manskapnum svo við þyrftum ekki að lenda með alla í sóttkví í einu og erum við nýkomnir úr því umhverfi."

Segir hlutabótaleið fyrir fyrirtæki í vandræðum

Ásgeir segir ekki hafa komið til greina að nýta hlutabótaleiðina, sem hann telur að hefði ekki nýst flugumferðarstjórum vel enda almennt með tekjur vel yfir hámarkinu 650 þúsund króna hámarkinu sem þar er gert ráð fyrir.

„Við höfum ekki verið með neinn á hlutabótaleið og það stendur ekki til að nýta hana. Við teljum að við séum nógu stöndugt fyrirtæki til þess að geta brugðist við á þennan hátt," segir Ásgeir. Spurður hvort ekki hefði verið hreinlegast fyrir ríkisfyrirtækið að nýta sér þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið öllum fyrirtækjum til jafns fyrir sína starfsmenn hingað til, neitar hann því.

„Nei, það hefur verið skoðun okkar að hlutabótaleiðin sé fyrir fyrirtæki sem eru í miklum vandræðum og jafnvel ekki getað haldið áfram rekstri vegna ástandsins. Við erum ekki í þeirri stöðu."