Novator hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að um 87% hluthafa í Actavis höfðu við lokun markaðar í gær tekið tilboði Novators í allt hlutafé félagsins. Af um 4200 hluthöfum í félaginu höfðu nærri 3450 svarað tilboðinu og því voru um 750 hluthafar sem ekki höfðu svarað.

Novator ákvað í gær að framlengja tilboð sitt til miðvikudagsins 18. júlí til þess að gefa eftirstandandi hluthöfum tækifæri á að samþykkja tilboðið fram í næstu viku. "Þeir hluthafar eiga þá áfram möguleika á að njóta þess ávinnings sem felst í tilboði Novators og áform Novators um afskráningu Actavis og innlausn minnihluta hluthafa munu ganga hraðar fyrir sig en ella," segir í tilkynningu félagsins.