Það er alveg víst að haustið 2005 þegar stjórnendur Glitnis sóttu sér 750 milljónir dala með útgáfu skuldabréfs hefur þá ekki rennt minnsta grun í að réttum þremur árum síðar myndi þetta sama bréf ríða bankanum svo að segja að fullu og neyða hann til að leita til Seðlabanka og ríkisins til þess að forða sér frá falli. Það er meira að segja ólíklegt að fjölmiðlar hafi fjallað um lántökuna en þóttu slíkar útgáfur bankanna á þeim tíma vart fréttaefni nema þær losuðu milljarði dala eða evra.

Þetta var í þá gömlu og góðu daga þegar lánsfé draup svo að segja af hverju strái og var auk þess afar ódýrt. Þó að það skipti ekki miklu máli nú má þó nefna að álagið ofan á millibankavexti á umræddu skuldabréfi sem Glitnir gaf út var var ekki nema 16 punktar og nánast eins og að horfa inn í annan og algerlega horfinn heim þegar þau kjör eru borin saman við það sem býðst nú - ef mönnum býðst þá á annað borð eitthvað.

Allt til verri vegar

En sem sagt, þetta 750 milljón dala skuldabréf, jafngildi tæpra 80 milljarða króna, var með gjalddaga þann 15. október eða eftir hálfan mánuð, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, og munu þeir Glitnis-menn einfaldlega ekki hafa séð fram á að geta greitt það á gjalddaga og leituðu því í neyð til Seðlabankans. Eins og hæfir í dramatískri frásögn er þetta vitaskuld nokkuð einfölduð mynd af því sem væntanlega hefur gerst; auðvitað voru stjórnendur Glitnis sér vel meðvitaðir um skuldabréfið og gjalddagann og töldu sig örugglega þar til fyrir skömmu geta mætt honum. Um það þarf í sjálfu sér ekki að efast.

En á skömmum tíma þróuðust hlutirnir mjög til hins verra og það er vafalaust til þess sem Lárus Welding, forstjóri Glitnis, vísaði þegar hann talaði um að upp hefði komið „skammatímalausafjárvandi“ sem bankinn hefði ekki séð fram úr og að þar væri hann að tala um vanda innan mánaðar.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .