Hagnaður Straums Fjárfestingarbanka eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2005 nam 7.630 milljónum króna en var 3.097 milljónir króna árið 2004 og er það 146% hækkun. Hagnaður eftir skatta á öðrum ársfjórðungi nam 3.052 milljónum króna, jókst um 182% milli ára.

Hagnaður bankans fyrir skatta á fyrri árshelmingi nam 8.889 milljónum króna og er það 137% aukning frá fyrra ári.

Hagnaður á hlut á fyrstu sex mánuðum ársins var 1,33 krónur og hækkar um 75% frá sama tímabili í fyrra.

Hreinar rekstrartekjur frá áramótum námu 9.498 milljónum króna og jukust um 138% frá fyrra ári.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum var 4,7% á fyrri hluta ársins og hreinar rekstrartekjur sem hlutfall af heildareignum 7,9%.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 22% á fyrstu sex mánuðum ársins sem gerir 48,8% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli.

Heildareignir bankans námu 120.855 milljónum króna en voru 89.644 milljónir króna í árslok 2004 og hafa því vaxið um 34,8% frá áramótum.

Eigið fé var 45.844 milljónir króna í lok annars fjórðungs og hefur aukist um 41% frá áramótum. Eiginfjárhlutfall á CAD-grunni var 19,8%, þar af A-hluti 14,2%.

Útlán til viðskiptamanna námu 38.268 milljónum króna og hafa útlán vaxið um 51% á frá áramótum. Virðisrýrnun útlánasafns nam 159 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins eða 0,5% af meðalstöðu útlána yfir tímabilið.

Lántaka bankans nam 29.033 milljónum króna í lok annars fjórðungs og skuldir við lánastofnanir voru 36.605 milljónir króna.

Í yfirlýsingu til Kauphallar segir Þórður Már Jóhannesson, forstjóri Straums Fjárfestingarbanka:

?Afkoma bankans á fyrri árshelmingi ársins 2005 er góð. Markvisst er unnið að eflingu bankans sem alhliða fjárfestingarbanka og góð afkoma skýrist meðal annars af þeim markmiðum sem sett voru í upphafi ársins. Tekjusvið bankans hafa styrkst, góð aukning er í vaxta- og þjónustutekjum sem skila fimmtungi af hreinum rekstrartekjum á öðrum ársfjórðungi. Framundan er frekari efling bankans sem alhliða fjárfestingarbanka. Straumur hefur byggt upp gott samstarf við íslensk fyrirtæki og fjárfesta í útrás en áhersla verður lögð á að styrkja viðskiptatengsl erlendis sem nýtist bæði bankanum og fjárfestum.?