*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 6. maí 2021 14:32

7,6 milljarða hagnaður á fyrsta fjórðungi

Tvöþúsund fjölskyldur og einstaklingar tóku lán hjá Landsbankanum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Ritstjórn
Gígja Einarsdóttir

Afkoma Landsbanka Íslands á fyrsta ársfjórðungi var jákvæð um 7,6 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár var 11,7%. Af uppgjörinu má ráða að þjónustutekjur hafi aukist, sem rakið er til aukinna umsvifa bankans, en vaxtamunur minnkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Á sama tímabili í fyrra var afkoma bankans neikvæð um 3,6 milljarða króna sem rekja mátti til matsbreytinga á útlánasafni. Hreinar vaxtatekjur námu 8,6 milljörðum króna, drógust saman um 800 milljónir, en þjónustutekjur jukust um 200 milljónir og námu 2,1 milljarði. 

Rekstrarkostnaður var 6,6 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 3,8 milljarðar króna og standa í stað á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 2,8 milljarðar króna samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður. 

Heildareignir jukust um 36,8 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins og námu rúmlega 1.600 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina jukust um 14 milljarða sem að stærstum hluta má rekja til einstaklingslána. Innlán jukust um milljarð og námu 794 milljörðum. Eigið fé var rúmlega 260 milljarðar og eiginfjárhlutfall 24,9%. 

„Gott uppgjör Landsbankans fyrir fyrsta ársfjórðung endurspeglar góðan árangur í öllum rekstri bankans og batnandi efnahagshorfur. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er um 38% og á rúmlega einu ári hefur hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði aukist úr 22,0% í 26,8% og hefur aldrei verið hærri. Á fyrstu þremur mánuðum ársins tóku yfir tvö þúsund einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum og þar af voru tæplega 400 að kaupa sína fyrstu íbúð,“ er haft eftir bankastjóranum Lilju Björk Einarsdóttur í tilkynningu.

Stikkorð: Landsbankinn