Seðlabanki Íslands tók tilboðum að fjárhæð 30,9 milljónum evra í gjaldeyrisútboði þar sem bankinn bauðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í löngum ríkisverðbréfaflokki. Gengi viðskiptanna var 233 krónur fyrir hverja evru. Alls bárust tilboð að fjárhæð 39,1 milljón evra til þátttöku í fjárfestingarleiðinni svokölluðu og tilboðum tekið fyrir 26,4 milljónir evra. Í ríkisverðbréfaleiðinni var tilboðum tekið fyrir 4,5 milljónir evra. Alls bárust 86 tilboð og voru keyptar evrur að andvirði 7,2 milljarða króna.

Áttunda gjaldeyrisútboð bankans á árinu lauk í dag. Í síðasta útboðinu, þar sem bankinn keypti krónur í skiptum fyrir evrur, bárust 40 tilboð að fjárhæð 19,9 milljarðar króna. Tilboðum að fjárhæð 6,8 milljarðar var tekið á genginu 233 krónur fyrir evru.

Fram kemur í tilkynningu Seðlabankans að kaupendur ríkisverðbréfanna hafa að 81% verið lífeyrissjóður á árinu. Tilboðum hefur verið tekið fyrir samtals 124,7 milljónir evra. Í fjárfestingarleiðinni nemur fjárhæðin 190,7 milljónum evra sem samsvarar um það bil 76 milljörðum króna. Þar hafa hlutabréf verið 48% kaupanna, skuldabréf 38%, fasteignir 13% og kaup í verðbréfasjóðum 1%.

Næstu gjaldeyrisútboð verða haldin 5. febrúar, 19. mars og 30. apríl á næsta ári.