Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var rekinn með 76  milljóna króna hagnaði fyrstu 6 mánuði ársins 2009.  Í lok júní námu heildareignir sjóðsins  4.265  milljónum króna og var eigið fé hans á sama tíma 4.035 milljónir króna eða sem nemur  95 % af heildareignum segir í tilkynningu.

Á fyrri hluta ársins hefur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfest fyrir rúman hálfan milljarð króna, þar af beint í fimm nýjum verkefnum fyrir um 300  milljónir króna.  Þessi verkefni eru:

-gogoyoko ehf  sem er tónlistar- og samskiptavefur þar sem tónlistafólk og unnendur tónlistar stunda milliliðalaus viðskipti og samskipti.  gogoyoko veitir í raun aðgang að alheimsmarkaði milliliðalaust. Starfsmönnum hefur fjölgað verulega á árinu og eru nú 28.

-Gogogic ehf  sem sérhæfir sig í frumlegri leikjahönnun, gerð smærri tölvuleikja og framleiðslu margmiðlunarefnis fyrir vefinn. Fyrirtækið hefur m.a. gefið út tölvuleikinn Symbol6 og  fyrir iPhone og iPod Touch.  Hjá fyrirtækinu starfa nú 18 manns.

-Auris ehf  er fyrirtæki sem vinnur að þróun á nýju lyfi til útvortis notkunar gegn bráðri miðeyrnabólgu hjá börnum. Lyfinu er ætlað að koma í stað hefðbundinnar sýklameðferðar sem getur valdið lyfjaónæmi.  Félagið hefur gert samning um klínískar rannsóknir þar sem lyfið verður prófað og á þeim að ljúka í byrjun næsta árs.

-Gagnavarslan ehf sem veitir fyrirækjum og stofnunum margþætta þjónustu og ráðgjöf við skipulagningu og varðveislu gagna af öllum gerðum.  Gagnavarslan hefur þróað og byggt upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Í geymslum félagsins á Ásbrú í Reykjanesbæ er hægt að geyma ekki aðeins pappír- og rafræn gögn heldur einnig listaverk og menningaminjar við rétt hita- og rakastig. Hjá félaginu starfa 30 manns.

-Mentis Cura ehf  hefur þróað aðferð sem greinir heilasjúkdóma, m.a. Alzheimer, út frá heilaritum sem aðferð félagsins greinir og túlkar. Með greiningu er vonast til að sjúkdómar verði greindir fyrr og af meira öryggi en áður sem aftur gæti aukið möguleikana á læknismeðferð.  Markaðssetning á vörum félagsins er að hefjast í samstarfi við stórt alþjóðlegt fyrirtæki á heilbrigðissviði.  Hjá Mentis Cura starfa nú 9 manns.