Niðurstöður sýna að nettenging er til staðar á 93% íslenskra heimila. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Árleg fjölgun nettengdra heimila hefur verið að meðaltali 2% síðustu fimm ár, en fjölgunin er þó minni á milli áranna 2010 og 2011 en á fyrri árum. Ríflega 4% landsmanna á aldrinum 16–74 ára hafa aldrei notað netið en 93% netnotenda nota netið daglega.

Aukning hefur orðið á notkun Íslendinga á samskiptasíðum, úr 70% netnotenda árið 2010 í 76% nú. Ríflega 40% hafa lesið eða skrifað skoðanir á netinu um stjórnmálaleg eða samfélagsleg málefni og rúmlega einn þriðji hluti netnotenda hefur reynt að hafa áhrif á samfélagslega umræðu, t.d. með þátttöku í netkosningu eða undirskriftalistum á netinu. Ríflega helmingur netnotenda á aldrinum 16–74 ára höfðu verslað á netinu þegar miðað var við ár fram að rannsókn. Algengast var að keypt hefði verið áskrift að fjarskiptaþjónustu, aðgöngumiðar á viðburði, farmiðar og önnur ferðatengd þjónusta. Þriðjungur allra sem hafa notað tölvu hafa uppfært eða sett upp nýtt stýrikerfi í tölvum sínum. Tæp 62% telja tölvu- og netkunnáttu sína vera nægilega ef þeir myndu leita að nýju starfi eða að skipta um starf innan árs. Rúm 57% telja að tölvu- og netkunnátta sín sé nægileg til að vernda tölvu sína fyrir vírusum og öðrum tölvuógnum.