Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur 77 mál til rannsóknar og 112 aðilar, bæði lögaðilar og einstaklingar, hafa verið kærðir í 23 málum vegna meintra brota á gjaldeyrislögum. Alls hafa 120 mál verið felld niður vegna rannsóknar á meintum brotum um gjaldeyrismál. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um rannsókn mála vegna meintra gjaldeyrisbrota.

161 mál hefur verið tekið til formlegrar rannsóknar, en eins og áður sagði eru 77 mál enn í rannsókn. 28 málum hefur verið lokið með stjórnvaldssekt eða sátt en 42 málum vegna annmarka á reglum. Í 35 málum var ekki tilefni til frekari rannsóknar og eitt mál var fyrnt.

23 mál hafa verið kærð vegna brota á gjaldeyrislögum. Eitt mál sem Seðlabankinn tilkynnti til fjármálaeftirlitsins, sem siðar kærði til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafi lokið með ákæru. Sérstakur saksóknari hefur rannsókn ellefu mála sem gjaldeyriseftirlitið hefur kært og bankinn hefur sjálfur afturkallað fjögur mál. Sjö mál hafa verið endursend frá embætti sérstaks saksóknara og eitt mál er enn til rannsóknar hjá embættinu.