"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísli á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum," segir í frétt á vef stofnunarinnar sem birt var í fyrradag. Frestur til að kæra ákvörðun stofnunarinnar er til 3. júní.

Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur undanfarna mánuði verið að íhuga kosti og galla þess að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Ekki er búið að semja um neitt og eru þreifingar enn í gangi að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna.

Áætlanir gera ráð fyrir að reist verði 93 þúsund fermetra verksmiðja sem geti framleitt 16 þúsund tonn af kísil á hverju ári. Kísillinn er notaður til framleiðslu á sólarflekum til raforkuframleiðslu. Áætlaður fjárfestingakostnaður við framkvæmdirnar er um 77 milljarðar króna og er á verksmiðjan að skapa 400 störf.

Nánar er fjallað um málið Í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .