Um 9% allra ferðamanna sem komu til landsins sumarið 2007 fóru í hvalaskoðun frá Húsavík og 78% allra ferðamanna sem komu til Húsavíkur fóru í hvalaskoðun, eða 41 þúsund talsins. Kemur þetta fram í skýrslu Rannveigar Guðmundsdóttur og Andra Vals Ívarsson hjá Þekkingarsetri Þingeyinga unnu á síðastliðnu sumri.

Í skýrslunni var mat lagt á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Húsavík, með áherslu á hvalaskoðun og reiknuð út óbein margfeldisáhrif.

Skýrslan sýnir jafnframt að 40% allra þeirra ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun við Ísland árið 2007 fóru í Hvalaskoðun á Húsavík. Ekkert lát virðist hafa verið á þessari aðsókn og var áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamanna á Húsavík árið 2008 tæpar 650 milljónir króna.

Áætla má að tekjur vegna sölu á farmiðum í hvalaskoðun á Húsavík árið 2007 voru um 129 milljónum kr. sé miðað við 41 þúsund gesti í hvalaskoðun. Útgjöld ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun voru að jafnaði rúmar 13 þúsund krónur á dag, en marktækur munur var á útgjöldum ferðamanna eftir því hvort þeir fóru í hvalaskoðun eða ekki. Nánari umfjöllun um skýrsluna má sjá á vef Ferðamálastofu og hér má sjá skýrsluna á pdf formi.