Fyrir misserið 2016-2017 sóttu 1203 um skólavist hjá Háskólanum á Akureyri. Flestar umsóknir bárust í hjúkrunarfræði - alls 230 - en næst flestir hyggja á nám í sálfræði eða 158. Mesta aukning milli ára var í kennarafræðum og í lögfræði. Þetta eru svipaðar tölur og á haustönn í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum frá skólanum hallar mjög á karlmenn sem stunda nám við HA - en samkvæmt forstöðumanni markaðs- og kynningarsviðs skólans eru þeir einungis 22% af nemendum en konur um 78%. Skólinn hyggst því rýna í þessar tölur og leita úrræða til að jafna hlutföllin.

Gæti orðið erfitt að taka á móti jafn mörgum

Eyjólfur Guðmundsson, rektor skólans, er ánægður með þann fjölda umsókna sem borist hafa skólanum, en hefur hann þó áhyggjur af undirfjármögnun. Tekur hann einnig fram að með áframhaldandi vinsældum náms við HA gæti orðið erfitt að taka við sama fjölda námsmanna á næsta ári.