Olíuverð hefur hríðfallið síðustu mánuði og hefur það komið sér mjög illa fyrir ríki sem eru háð olíuframleiðslu. Til skamms tíma eru Norðmenn varðir fyrir miklum sveiflum í olíuverði vegna digurs olíusjóðs þeirra. Til lengri tíma litið eru líkur á að þeir þurfi að sækja meira fé í sjóðinn en þeir hafa hingað til þurft að gera.

Atvinnuleysi hefur hækkað umtalsvert á síðustu mánuðum en í maímánuði nam það 4,3% og hefur ekki verið hærra í um ellefu ár. Eftir fjármálakreppuna náði atvinnuleysi í Noregi hámarki í 3,7% árið 2010 en það hefur farið stigvaxandi frá byrjun þessa árs.

Eftir að fjármálakreppan skall á fjölgaði þeim Íslendingum sem fluttu til Noregs gífurlega. Á árinu 2008 fluttust 278 Íslendingar til Noregs en ári síðar fluttust 1.486 Íslendingar til Noregs. Fjöldi brottfluttra Íslendinga til Noregs náði hámarki árið 2011 þegar 1.508 fluttu af landi brott til Noregs en þeim hefur fækkað síðan þá. Á síðasta ári fluttust 1.004 Íslendingar til Noregs á meðan 622 fluttu frá Noregi til Íslands.

Samtals voru brottfluttir íslenskir ríkisborgarar til Noregs umfram aðflutta 4.429 talsins frá árinu 2009 til ársins 2014 en frá árinu 2011 hefur brottfluttum fjölgað og aðfluttum fækkað ár frá ári. Nú þegar útlit er fyrir vaxandi atvinnuleysi á Noregi er líklegt að Íslendingar snúi í auknum mæli aftur heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .