Boeing 787 Dreamliner vél í eigu japanska flugfélagsins All Nippon Airways flaug í dag sitt fyrsta farþegaflug. Vélinni var flogið frá Tókýó í Japan til Hong Kong.

Mikil eftirvænting hefur verið eftir fyrsta farþegaflugi vélarinnar en All Nippon fékk fyrsta eintakið af Dreamliner vélinni afhent í lok september.

Reglulegt flug All Nippn á 787 Dreamliner vélinni hefst á mánudaginn og verður vélin notuð í innanlandsflugi í Japan til að byrja með. Flugdrægni vélarinnar er þó töluverð þar sem vélin getur flogið allt að 15 þúsund kílómetra, sem samsvarar flugi frá New York til Hong Kong eða Jóhannesarborgar í S-Afríku án þess að millilenda.

Um 800 vélar hafa verið pantaðar frá Boeing og hefur þeim fækkað nokkuð. Pantanir náðu í um 850 vélar en undanfarin misseri hafa flugfélög víða um heim ýmist skipt yfir í Boeing 777 eða snúið viðskiptum sínum til helsta samkeppnisaðilans, Airbus. Stærsta afpöntunin kom í september sl. þegar kínverska flugfélagið China Eastern afpantaði 24 vélar.

Eins og áður hefur komið fram á síðum Viðskiptablaðsins mun 787 Dreamliner vélin fá öfluga samkeppni innan fárra ára en Airbus áætlar að setja nýjustu vél sína A350 á markað árið 2013. Líkast til má gera ráð fyrir að það tefjist eitthvað en A350 vélin á líkt og 787 Dreamliner að sparneytnari og léttari en aðrar vélar af sambærilegri stærð.