Rúmfatalagerinn hagnaðist um ríflega milljarð á síðasta rekstrarári, sem er rúm tvöföldun milli ára. Tekjur námu 8,7 milljörðum og jukust um rúman fimmtung. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins, en rekstrarárið er frá 1. mars til febrúarloka.

Rekstrarkostnaður nam 6,9 milljörðum og rekstrarhagnaður því 1,7 milljörðum. Heildareignir voru 5,5 milljarðar í lok tímabilsins og eigið fé 2,9 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var því 51,6% og hækkaði um tæp 2 prósentustig.

Móðurfélagið greiddi upp allar skuldir sínar við lánastofnanir á reikningsárinu, 190 milljóna langtímaskuldir og 100 milljóna skammtímaskuldir og aflétti þar með veðböndum vegna þeirra. Samstæðan – sem einnig inniheldur dótturfélag í Færeyjum í samskonar rekstri, og á Íslandi sem á og rekur verslunarhúsnæði – var þó enn með 1,7 milljarða langtímaskuldir.

Greidd laun námu 1,3 milljörðum og jukust um 16% milli ára, og meðalfjöldi starfsmanna var 167 og hækkaði um 2. Meðallaun voru því 632 þúsund á mánuði og hækkuðu um 15%. Greiddar voru 790 milljónir í arð á rekstrarárinu, og lagt var til á aðalfundi að greiddur verði arður á þessu ári.