*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 9. júlí 2021 16:27

794 milljóna velta með bréf Play

Hlutabréfaverð Play endaði fyrsta viðskiptadaginn á First North í 23,0%-26,7% hækkun frá útboði félagsins í lok júní.

Ritstjórn
Frá Nasdaq skjánum á Times Square í dag.
Aðsend mynd

Hlutabréfagengi Play endaði fyrsta viðskiptadaginn á First North Markaðnum í 24,6 krónum á hlut, 23% yfir genginu í hlutafjárútboði flugfélagsins í síðasta mánuði. Hækkunin nam 36,7% ef horft er til tilboða í áskriftarbók B (tilboð undir 20 milljónum) í útboðinu. Alls var 794 milljóna króna velta með hlutabréf Play í dag. 

Sjá einnig: Akta sjóðir og Fiskisund stærst í Play

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar hækkaði Icelandair um 2,4% og var gengið í 1,70 krónum á hlut við lokun markaða. Hlutabréfaverð Icelandair hefur ekki verið hærra síðan í byrjun febrúar. Flugfélagið hefur boðað hluthafafund þann 23. júlí næstkomandi vegna fyrirhugaðra kaupa Bain Capital á 16,6% í félaginu.

Sjóvá hækkaði um 2,8%, mest allra félaga Kauphallarinnar, og stóð gengi tryggingafélagsins í 35,5 krónum á hlut í lok dags. Sjóvá sendi frá sér afkomuviðvörun í gær þar sem fram kom að hagnaður fyrir skatta á öðrum fjórðungi ársins hafi verið nærri tvöfalt hærri en á sama tíma í fyrra. VÍS hækkaði einnig um 1,9% í dag og hafa nú bæði tryggingafélögin í Kauphöllinni hækkað um 85% á einu ári. Gengi Sjóvár og VÍS hafa aldrei verið hærri.