Sparisjóðurinn Indó opnaði formlega á innlánsreikninga í formi veltureikninga fyrir almenning í lok janúar síðastliðins. Viðskiptavinum félagsins hefur fjölgað um 14,5 þúsund í ár og eru nú orðnir tæplega 20 þúsund talsins. Innlánastaða Indó hefur aukist um meira en milljarð króna í ár. Þetta kom fram á aðalfundi Indó sem fór fram í dag.

Það sem af er ári nálgast kortavelta hjá Indó óðum 2 milljarða króna og alls hafa farið fleiri en 326 þúsund kortafærslur í gegnum Indó, þar af um 26 þúsund á Tenerife. Því má rekja um 8% af kortafærslum sparisjóðsins til Tenerife.

Indó, sem lagði áherslu á veltureikninga í fyrst, hyggst fara af stað með sparireikninga í apríl. Þá stefnir félagið á að bjóða upp á útlán síðar á árinu að undangengnum prófunum.

Sóttu milljarð

Tap varð af rekstri Indó að fjárhæð 196 milljónum króna árið 2022, samanborið við 86 milljóna tap árið 2021. Líkt og fyrr segir þá opnaði sparisjóðurinn formlega á veltureikninga í janúar 2023.

Eignir Indó voru bókfærðar á 903 milljónir króna í árslok 2022, samanborið við 85 milljónir ári áður. Handbært fé um áramótin var um 700 milljónir. Eigið fé félagsins var um 344 milljónir.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að hlutafé hafi verið aukið um 514 milljónir í fyrra. Í lok síðasta árs var frekari hlutafjáraukning að fjárhæð 458 milljónir samþykkt og var það hlutafé greitt að fullu um síðustu áramót. Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að nýtt hlutafé og fyrirfram innheimt hlutafé á síðasta ári hafi numið 855 milljónum.

Ásdís Virk í stjórn

Á aðalfundi Indó í dag var ný stjórn kjörin. Ný í aðalstjórn er Ásdís Virk Sigtryggsdóttir, sem starfar sem forstöðumaður verkefnastofu hjá DTE. Hún tekur sæti í stjórninni stað Ingu Birnu Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Wise, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Eftirtalin voru kjörin í stjórn Indó:

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, formaður
  • Gréta María Grétarsdóttir
  • Sigþór Sigmarsson
  • Ásdís Virk Sigtryggsdóttir
  • Theódór Ragnar Gíslason

Ný í varastjórn er Dóra Hlín Gísladóttir, sem starfar hjá Kerecis. Auk hennar var Ríkharð Otto Ríkharðsson kjörin í varastjórn.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, var endurkjörinn stjórnarformaður indó.
© Aðsend mynd (AÐSEND)