Alls fóru 1.426.000 bílar um Hvalfjarðargöng á síðasta rekstrarári Spalar, frá 1. október 2003-30. september 2004, eða tæplega 3.900 bílar á sólarhring. Umferðin jókst um 8% frá fyrra ári. Þess má geta að göngin eru hönnuð fyrir allt að 5.000 bíla að jafnaði á sólarhring. Þetta kom fram í máli Stefáns Reynis Kristinssonar, framkvæmdastjóra Spalar, á aðalfundi félagins í gær. Mesta sólarhringsumferðin var 11.739 bílar á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi.

Meðaltekjur af bíl hafa farið lækkandi undanfarin ár, bæði að nafnvirði og raunvirði. Ástæðan er sú að fleiri og fleiri vegfarendur nýta sér afsláttarkjör Spalar og svo sér verðbólgan um að lækka raunvirði veggjaldsins hægt og bítandi vegna þess að gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið óbreytt í langan tíma.

Tekjur Spalar að frádregnum virðisaukaskatti voru voru 992,2 milljónir króna á síðasta rekstrarári en voru 904,9 milljónir króna árið þar áður. Hagnaður ársins var 53,9 milljónir króna en var 51,1 milljón á fyrra ári. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað og var liðlega 180 milljónir króna bæði á síðasta rekstrarári og árinu þar á undan.