Stjórnarformaður hugbúnaðarfyrirtækisins Intel, Craig Barrett, lofaði hugmyndaríkum einstaklingum milljónir króna þegar hann setti ráðstefnuna Intel Developer Forum í San Francisco í gær.

Í opnunarræðu sinni ræddi Barrett um þjóðfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvað tækni getur breytt í heiminum og tæknisinnaðir einstaklingar haft áhrif á umhverfi sitt.

Hann tilkynnti jafnframt að Intel myndi veita fjórum einstaklingum viðurkenningu fyrir bestu og frumlegustu hugmyndirnar um hvernig nýta megi tækni til að bregðast við ýmsum áskorunum innan málaflokka á borð við menntun, heilbrigðismál, efnahagsþróun og umhverfi.

Fær hver þeirra 100 þúsund dollara í sinn hlut, eða sem svarar rúmum 8 milljónum króna.