Reiknistofa bankanna sagði upp 8 starfsmönnum fyrir tæpum þremur vikum vegna skipulagsbreytinga. Starfsmennirnir sem um ræðir voru þvert á deildir, en breytingarnar fólust í fækkun sviða.

„Þetta var hagræðing sem náði víða innan fyrirtækisins,“ segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofunnar. Hún segir aðgerðirnar ekki tengjast efnahagsástandinu sem slíkar, kórónukreppan hafi ekki haft teljandi áhrif á rekstur fyrirtækisins.

„Okkar umhverfi er samt náttúrulega að breytast heilmikið,“ segir hún. Reiknistofan vinni mest fyrir bankana, og endurspegli því rekstur þeirra að vissu leyti. Eftir uppsagnirnar vinna 160 manns hjá fyrirtækinu, en sem fyrr segir var störfum fækkað á öllum sviðum, og meðal þeirra voru stjórnendur.