*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 1. desember 2019 11:08

80 íbúðir selst í miðborginni í haust

Í heildina ríflega 700 íbúðir selst á uppbyggingarreitum vestan Elliðaáa. Fermetraverð frá 650 til 700 þúsund.

Ritstjórn
19 íbúðir hafa selst á tveimur nýjum fjölbýlishúsum á Kirkjusandi, en þar og annars staðar í miðborginni hafa selst um 80 íbúðir á haustmánuðum.
Haraldur Guðjónsson

Frá því í byrjun september hafa tæplega 80 íbúðir á nokkrum mismunandi reitum í miðborg Reykjavíkur selst að því er Morgunblaðið greinir frá. Ef miðað er við 50 milljónir á íbúð er söluverðið samtals um 4 milljarðar króna.

Þar með er búið að selja hátt hlutfall íbúða í nýjum húsum á Hverfisgötu 96 til 98, Frakkastígsreitnum og á Höfðatorgi. Jafnframt hafi um helmingur íbúða á Brynjureitnum og Hafnartorgi verið seldur og tæpan fjórðung íbúða á Hverfisgötu 85 til 93.

Búið er að selja 19 íbúðir í tveimur nýjum fjölbýlishúsum á Kirkjusandi. Auk alls þessa eru 70 íbúðir á Austurhöfn langt komnar en ekki er gefið upp um hlutfall seldra íbúða þar. Á fjórða hundruð íbúða hafa komið á sölu á reitum á miðborgarsvæðinu síðan í árslok 2017 og er slíkt framboð á þessu svæði án fordæma, þó eitthvað hafi fækkað á móti með niðurrifi eldri íbúða.

Verktakar hafi lækkað verð

Á sama tíma heyrast fréttir af því að bankar hafi dregið úr lánum til íbúðauppbygginga, og kvarti undan skorti á lánsfé, virðist sem verktakar hafi lækkað verð nýrra íbúða í miðborginni.

Samtímis stefnir í að stjórnvöld hyggist hraða undirbúningi lagasetningar sem á að veita sérstök vaxtarlaus hlutdeildarlán, eða eiginfjárlán, til fyrstu kaupenda, sem ríkið endurheimti að tilteknum árafjölda liðnum.

Er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra að þó hafi ekki verið ákveðin hámarksfjárhæð slíkra lána né lánshlutfallið, og heldur ekki hvort þær verði einungis fyrir nýbyggingar sem uppfylli skilyrðu um svokallað hagkvæmt húsnæði.

120 af tæplega 700 íbúðum á Hlíðarenda seldar

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni hefur Íbúðalánasjóður jafnframt endurmetið þörf á nýjum íbúðum úr 5 til 8 þúsund íbúððir í tæpleg 4 til 6 þúsund íbúðir. Fyrir utan miðborgarreitina eins og þeir eru skilgreindir hér að framan hafa 120 íbúðir á E og F reitum Hlíðarendasvæðisins selst. Í heildina eru um 670 íbúðir á C, D, E og F reitum svæðisins.

Á lóðunum kringum RÚV á Efstaleiti hafa svo selst um 300 íbúðir, og kemur þar síðasti áfanginn til afhendingar í sumar. Þar með hafa selst samanlagt 730 íbúðir á miðborgarreitunum auk Hlíðarenda og Efstaleitinu síðustu misserin. Fermetraverðið er algengt um 650 þúsund krónur á fermetrann í Efstaleitinu en nær 700 þúsund á miðborgarreitunum.