Leigumarkaðurinn heldur áfram að stækka að því er kemur fram í nýrri könnun Zenter sem unnin var fyrir Hagdeild Íbúðalánasjóðs. Í könnuninni segjast 9,6% búa í foreldrahúsum, 17,1% á leigumarkaði og 70,1% búa í eigin húsnæði. Til samanburðar voru 12,1% á leigumarkaði árið 2006 en hlutfallið hefur hækkað á undanförnum rúmum áratug, þó mest eftir hrun.

Í könnuninni var jafnframt var spurt hvort fólk teldi líkur á að vera á leigumarkaði eftir 6 mánuði. Þar kemur fram að um 19% telja líklegt að verða á leigumarkaði, 1% hvorki né en um 80% fólk svaraði að það væri örugglega ekki eða ólíklegt. Telur hagdeildin það benda til þess að fleira fólk á þrítugsaldri sé farið að hugsa sér til hreyfings og stefni að því að flytja að heiman á næstunni.

Þá sögðust 80% leigjenda í könnun Zenter frekar vilja búa í eigin húsnæði væri nægt framboð af húsnæði. „Leigjendur virðast vilja komast í eigið húsnæði þótt þeir telji flestir líkur á að þeir muni vera áfram á leigumarkaði,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir nóvember mánuð.

Hagur leigjenda virðist þó vera að vænka en hlutfall leigjenda sem segist geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé eykst úr 28% í 46% milli kannana. „Sú niðurstaða er í takt við aukinn kaupmátt í þjóðfélaginu undanfarin misseri,“ segir í skýrslunni en kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 7,4% á árinu 2015 og 6,9% á árinu 2016 samkvæmt gögnum Hagstofunnar.