Frá því að íslenska OMXI8 hlutabréfavísitalan náði sögulegu hámarki sínu þann 28. apríl síðastliðinn í 1.951,6 hefur leið hennar legið snarlega niður á við. Rúmum þremur mánuðum síðar lokaði hún í 1.718,7 þann 2. ágúst síðastliðinn og er um 12% lækkun að ræða.

OMXI8 úrvalsvísitalan samanstendur af átta fyrirtækjum á íslenskum hlutabréfamarkaði: Högum, HB Granda, Icelandair, Marel, N1, TM, Sjóvá og VÍS. Átta önnur félög eru á markaði: Eik, Eimskip, Fjarskipti (Vodafone), Nýherji, Reitir, Reginn, Síminn og Össur.

Langmest rýrnun hjá Icelandair

Hlutabréf í Icelandair Group hafa fallið gríðarlega í verði undanfarna mánuði og haft mikil áhrif á úrvalsvísitöluna. Alls hafa fyrirtæki vísitölunnar tapað 74,3 milljörðum króna af markaðsvirði sínu frá því í hámarkinu þann 28. apríl m.v. lokun markaða þann 2. ágúst og þar af hefur markaðsvirði Icelandair lækkað um 53,7 milljarða. Markaðsvirði félaga utan úrvalsvísitölunnar hefur einungis lækkað um 4,6 milljarða króna á sama tíma.

HB Grandi er það fyrirtæki sem hefur misst næst mest markaðsvirði frá 28. apríl, eða tæpa 11 milljarða króna. Þar á eftir fylgir Marel, en virði fyrirtækisins hefur lækkað um 4,3 milljarða á þessum tímapunkti. Frá ársbyrjun 2016 hefur markaðsvirði fyrirtækja í úrvalsvísitölunni lækkað um rúman 51 milljarð á meðan markaðsvirði fyrirtækja utan vísitölunnar hefur nánast staðið í stað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .