Auðmenn í Frakklandi og víðar hafa lofað yfir 600 milljónum evra, um 80 milljörðum króna til að endurreisa Notre Dame dómkirkjuna í París sem brann í gær að því er Bloomberg greinir frá. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét því í gær að kirkjan yrði endurreist og kallaði eftir framlögum til að fjármagna endurbygginguna.

Francois-Henri Pinault, stjórnarformaður Kering sem á Gucci, og Francois Pinault, faðir hans, riðu á vaðið og lofuðu 100 milljónum evra. Aðalkeppinautar þeirra, Arnault fjölskyldan, sem á Louis Vuitton, bætti um betur og lofuðu þau 200 milljónum evra.

Þá hefur Bettencourt Meyers fjölskyldan, aðaleigandi L’Oreal, einnig lofað 200 millljónum evra. Olíurisinn Total hefur heitið 100 milljónum evra til verksins og fjárfestirinn Henry Kravis hyggst gefa 10 milljónir dollara. Þá boðaði Tim Cook, forstjóri Apple að fyrirtækið myndi styðja verkefnið samkvæmt frétt FT um málið.

Eftir vinnu vefur Viðskiptablaðsins birti í morgun myndir af ferð ljósmyndara blaðsins í kirkjuna sem sýnir vel menningarverðmætin sem þar voru.

Óljóst er hvað kostar að endurbyggja Vorrar frúar kirkju, eins og hún heitir á íslensku. Fimm ár og 37 milljónir punda þurfti til að endurbyggja Windsor kastala eftir að hann skemmdist í brun árið 1992. Endurbætur stóðu þegar yfir á Notre Dame. Talið er að eldurinn hafi hugsanlega kviknað út frá framkvæmdunum en áætlaður kostnaður við hinar yfirstandandi framkvæmdir var 150 milljónir evra, ríflega 20 milljarðar króna.