Félagafundur Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands ákvað fyrir skömmu að leggja allt laust fé sjóðsins, miðað við 1. janúar 2006, í sérstakan sjóð sem ætlaður er til eflingar atvinnulífs á Suðurlandi. Um er að ræða upphæð nálægt 80 milljónum króna. Þetta var ákveðið í framhaldi af því að sjóðurinn hættir lánastarfsemi um næstu áramót.

Enn hefur ekki verið ákveðið með hvaða hætti fénu verður nákvæmlega ráðstafað,en frekar hefur verið horft til stuðnings við stærri verkefni á borð við eflingu háskólanáms á svæðinu. Áhugi er fyrir því að tengja ráðstöfun fjársins við samstarfsverkefni í tengslum við Vaxtarsamning Suðurlands sem nú er í smíðum segir í frétt á heimasíðu Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands.