Hagnaður næststærsta álframleiðanda í heimi, Norsk Hydro, dróst saman um 80% frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs og nam 1,1 milljarði norskra króna á fyrsta ársfjórðungi 2008, eða 16,5 milljörðum íslenskra króna.

Uppgjörið var undir væntingum markaðsaðila sem spáð höfðu 1,95 milljörðum norskra króna í hagnað, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

„Samdrátt á hagnaði má einkum rekja til óhagstæðs gengis Bandaríkjadollars og hækkandi orkuverðs. Á fjórðungnum varð einnig mikið tap vegna afleiðusamninga í Málmkauphöllinni í London (London Metal Exchange). Markaðsskilyrði á fjórðungnum þóttu vera verri en á síðasta ári en búist er við að félagið rétti úr kútnum á næsta fjórðungi,“ segir greiningardeildin.

„Búist er við að eftirspurn eftir áli eigi eftir að aukast um 9% á þessu ári einkum vegna aukinnar eftirspurnar frá Kína. Hydro á því líklega eftir að auka álframleiðslu sína um 2 milljónir tonna fyrir árið 2010. Óhagstætt veður og orkuskortur í Kína og Suður-Afríku mun þó væntanlega setja strik í reikninginn og er búist við að heimsframleiðsla á áli eigi eftir að minnka um 600.000 tonn á þessu ári af þeim sökum,“ segir greiningardeildin.