„Þetta verður spennandi sumar,“ segir Jóhann Bogason, deildarstjóri hjá TVG-Zimsen en von er á rúmlega 80 skemmtiferðaskipum með rúmlega 100 þúsund farþegar til landsins. Fjögur skip koma á mánudag. Þar á meðal eru stærstu skemmtiferðaskip sem komi hafa til Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá TVG-Zimsen að fyrirtækið og dótturfélag þess, Gára í Hafnarfirði, sjái um að þjónusta skipin á meðan dvöl þeirra stendur hér. TVG-Zimsen er umboðsaðili fyrir flest erlendu skemmtiferðaskipanna sem koma hingað til lands.

Á mánudag leggja við bryggju í Reykjavík skemmtiferðaskipin Crystal Symphony, Sea Explorer og Adventure of the Seas. Adventure of the Seas er stærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til landsins í sumar og mun vera stærsta skip sem hefur komið til Íslands. Skipið er rúmlega 137 brúttótonn og rúmar rúmlega 4.400 manns, þar af 3.100 farþega og um 1.200 skipverja. Auk þessara skipa mun skemmtiferðaskipið Astor leggjast að bryggju í Hafnarfirði.

Jóhann segir í tilkynningunni að þjónustan við skemmtiferðaskipin felist m.a. í aðstoð við áhafnarskipti, útvegun vista, varahluta og læknisþjónustu ásamt öllum samskiptum við höfn, toll og útlendingaeftirlit. Helstu hafnirnar sem skipin leggja við eru Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri en einnig hafa Vestmannaeyjar, Grundarfjörður og Seyðisfjörður verið að sækja á.