Sætanýting Iceland Express á síðasta ári var 80,5%, samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Segir að það sé með því besta sem gerist. „Þá hefur farmiðasala fyrir nýbyrjað ár farið afar vel af stað, en rúmlega 30 prósent fleiri farmiðar hafa selst í ferðir félagsins í ár, en á sama tíma í fyrra.“

Iceland Express ætlar að auka sætaframboð um rúmlega 20% á þessu ári samanborið við framboðið í fyrra. Segir að farþegum hafi enda fjölgað á flesta áfangastaði félagsins.  „Til dæmis voru farþegar Iceland Express tæplega áttatíu þúsund í júlí síðastliðnum, sem er 35 prósenta fjölgun frá sama tíma árið áður.   Þá jókst markaðshlutdeild Iceland Express á flugleiðinni milli Keflavíkur og London um 38,24 % í júlí.  Hlutur félagsins á þessari flugleið hefur aldrei verið stærri í átta ára sögu þess.“

Nýir áætlunarstaðir

„New York hefur slegið í gegn sem áfangastaður, enda flýgur félagið þangað allan ársins hring og daglega frá júníbyrjun á þessu ári.   Í könnunum meðal annars samkvæmt Travelmarket, sem er dönsk leitarvél í fargjöldum og er byggð á upplýsingum  frá Dansk Flyprisindex, en þar er fylgst grannt með allri verðlagningu í þessum geira, hefur komið fram, að  Iceland Express býður lægsta verðið á flugleiðinni milli Kaupmannahafnar og New York.  Getur verðmunurinn numið allt að fjörutíu prósentum.

Þá hyggst Iceland Express meðal annars hefja áætlunarflug til Dublin, Belfast, Edinborgar og Stokkhólms næsta sumar. Fyrirhugað er að fljúga þaðan og frá fleiri borgum í Evrópu og á Norðurlöndunum til Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi á leiðinni vestur um haf.  Þá verður einnig flogið til Boston og Chicago í sumar,“ segir í tilkynningu frá félaginu.