Mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt reglubundinni könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í mars 2011, telja 80% stjórnenda aðstæður slæmar, 19% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Þetta er örlítið skárri niðurstaða en fékkst í desember síðastliðunum þegar 84% stjórnenda töldu aðstæður slæmar.

Þetta kemur fram á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins þar sem greint er frá niðurstöðunum.

Mat stjórnenda á aðstæðum eftir 6 mánuði er svipað og verið hefur. 22% þeirra sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, 24% að aðstæður verði verri en 54% telja að þær breytist ekki. Meiri bjartsýni ríkir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 25% telja aðstæður batna, en á landsbyggðinni, þar sem einungis 12% telja þær batna. Stjórnendur í fjármálastarfsemi, verslun og þjónustu eru bjartsýnni en í öðrum greinum en mest svartsýni ríkir í byggingarstarfsemi, sjávarútvegi og samgöngum.

Þegar litið er eitt ár fram í tímann telja 49% stjórnenda að aðstæður verði betri en nú, 33% að þær verði óbreyttar og 18% að þær verði verri. Þessi niðurstaða er svipuð og verið hefur frá bankahruninu 2008 en því miður hafa væntingar um betri tíma að ári ekki náð fram að ganga.

Nánar á vef Samtaka atvinnulífsins .