Mikill meirihluti forráðamanna fyrirtækjanna telur aðstæður í efnahagslífinu fara batnandi eða tæp 80% aðspurðra og aðeins tæplega 3% telja þær verri. Hlutfall þeirra sem telja aðstæður í efnahagslífinu betri hefur því hækkað á síðustu mánuðum og er enn mjög hátt. Fyrirtæki í samgöngum, flutningum og þjónustu, bygginga starfsemi og veitum og í sérhæfðri þjónustu eru bjartsýnust á ástandið í efnahagslífinu.

Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar um stöðu og framtíðarhorfur stærstu fyrirtækja á Íslandi sem nú liggur fyrir. Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Capacent Gallup framkvæmir. Könnunin fór fram á tímabilinu 2. til 28. febrúar og svarhlutfall var 68%. Alls tók 251 fyrirtæki þátt í könnuninni i en í endanlegu úrtaki voru 392 fyrirtæki.

Greint er frá könnuninni í vegvísi fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram að almennt virðist bjartsýnin hafa aukist hjá forráðamönnum fyrirtækja um horfur í efnahagslífinu á næstu sex mánuðum. Vísitala efnahagslífsins fyrir sex mánuði mælist nú 118 stig en var 112 stig í september 2006. Bjartsýnin virðist minnka lítillega fyrir næstu 12 mánuði en vísitala efnahagslífsins fyrir 12 mánuði mælist nú 110 stig en mældist 128 stig í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður batni á næstu 6 til 12 mánuðum helst óbreytt frá síðustu mælingu en örlítil fjölgun hefur verið hjá þeim forráðamönnum sem telja að ástandið versni, sem útskýrir lækkunina í vísitölunni.


Ef borin eru saman viðhorf forráðamanna fyrirtækja í mismunandi  starfsemi eru það helst fyrirtæki í verslun og bygginga starfsemi og veitum sem eru bjartsýnni en fyrirtæki í sjávarútvegi og samgöngum,  flutningum og ferðaþjónustu sem eru svartsýnni. Ef litið er á mun milli fyrirtækja sem selja vörur eða þjónustu til útlanda virðist sem bjartsýni um ástandið í efnahagslífinu á næstu 6 til 12 mánuðum sé mun meiri hjá forráðamönnum fyrirtækja sem selja vöru og þjónustu innanlands en hjá þeim sem selja vöru og þjónustu til útlanda. Vísitalan fyrir þá sem ekki selja vöru og þjónustu mældist nú 130 stig en aðeins 96 stig fyrir þá sem selja vöru og þjónustu til útlanda.

Vísitala efnahagslífsins mælist 193 stig nú sem er sama tala og í desember 2006 en í september það ár mældist hún 173 stig.