Verðbólga í Tyrklandi mældist 80,2% í ágúst, samanborið við 79,6% í júlí, og hefur ekki verið meiri frá árinu 1998. Verðbólgutölurnar, sem voru birtar í gær, voru engu að síður undir spám greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir að hún færi upp í 81%. Financial Times greinir frá.

Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti, sem hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu, hefur skipað tyrkneska seðlabankanum að halda stýrivöxtum langt undir ársverðbólgu. Nú á dögunum lækkaði tyrkneski seðlabankinn stýrivexti um eitt prósentustig, úr 14% í 13%, þrátt fyrir sívaxandi verðbólgu.

„Við munum sjá verðbólguna hjaðna á næstu mánuðum,“ sagði Nureddin Nebati, fjármálaráðherra Tyrklands, á Twitter í gær. Flestir greinendur áætla hins vegar að verðbólgan muni ekki hjaðna fyrr en á næsta ári og að hún muni ná upp í 85% á þessu ári.

Gjaldmiðill Tyrklands, líran, hefur tapað meira en helmingi af verðgildi sínu gagnavert Bandaríkjadollaranum á síðustu tólf mánuðum. Veiking lírunnar á stóran þátt í vaxandi verðbólgu í landinu sem reiðir sig að miklu leyti á innflutning, sérstaklega þegur kemur að orku.