Skiptum á þrota­búi bíla­leigunnar GK-ACR ehf., sem áður hét Auto Car Rental ehf., lauk ný­verið og námu lýstar kröfur um 827 milljónum króna.

Fé­lagið, sem rak bíla­leigu, var tekið til gjald­þrota­skipta í febrúar árið 2019 og lauk skiptum á því í lok júní á þessu ári. Í síðasta árs­reikningi fé­lagsins, fyrir árið 2016, var eigið fé fé­lagsins nei­kvætt um 24 milljónir. Skuldir fé­lagsins námu 153 milljónum króna og þar af voru skuldir við tengda aðila 51 milljón króna.

Síðasta reiknings­ár fé­lagsins með já­kvætt eigið fé var árið 2013 þegar að það nam 250 þúsund krónum. Árið 2014 var það nei­kvætt um 5,5 milljónir króna og árið 2015 var það nei­kvætt um 18 milljónir króna.

Í lok árs 2016 var GK-ACR ehf. að fullu í eigu eignar­halds­fé­lagsins Grá­kletts ehf., sem er að fullu í eigu Vignis Óskars­sonar. Vignir er meðstjórandi í bílaleigunni Geysi en í lok árs 2019 áti hann 20% í félaginu gegnum tvö fé­lög, 9% í gegnum hið gjald­þrota fé­lag GK-ACR og 11% í gegnum Orange Car Rental. Aðal­eig­andi Geysis, með 80% hlut, er Garðar K. Vil­hjálms­son.

Í lok árs 2019 átti Vignir, í gegnum Grá­klett, meðal annars 100% eignar­hlut í Orange Car Rental og leigu­fé­laginu Fast­eigna­geirinn. Fé­lagið á einnig 20% hlut í Voot sem sam­kvæmt heima­síðu fyrir­tækisins veitir al­hliða þjónustu fyrir sjávar­út­veginn.