Það sem af er ári hafa skuldir ríkissjóðs hækkað um 254 milljarða króna á árinu, sem nema 882 milljörðum, en inni í þeim tölum um eru ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ekki meðtaldar en þær námu 722 milljörðum króna í ársbyrjun og höfðu hækkað um 75 milljarða króna milli ára. Tæpa átta milljarða á ári þarf inn á skuldbindinguna og hefur upphæðin hækkað um 800 milljónir ár hvert frá síðasta útreikningi.

„Með lagabreytingu 2016 var gerð gríðarleg kerfisbreyting sem var liður í jöfnun lífeyrisréttinda á íslenskum vinnumarkaði. Sú breyting fól í sér afnám bakábyrgðar ríkisins. Það þýðir að nú eru réttindin í LSR-A breytileg eftir því hvernig sjóðnum gengur en iðgjaldið fast,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Eftir standi hins vegar sá vandi sem felst í B-deild LSR en sú byggir á eftirmannakerfi, það er réttindi einstaklinga í sjóðnum eru óháð greiddu iðgjaldi og eru háð breytingum á launum viðmiðunarhópa. Fyrir nokkrum árum lá fyrir að að óbreyttu yrði sjóðurinn eignalaus í kringum 2028 en skuldbindingarnar myndu lifa um 30 árum lengur. Þá varð það niðurstaðan að við þyrftum að greiða inn sjö milljarða, á ári, í tæp fjörutíu ár, til að koma í veg fyrir að sjóðurinn tæmdist.

„Með þessa niðurstöðu í höndunum ákvað ég að leggja til reglulegar inngreiðslur í sjóðinn auk þess sem við lögðum sjóðnum til sérstakar aukainngreiðslur. Með þessu móti getum við komið í veg fyrir að við fáum stórt högg á okkur í framtíðinni,“ segir Bjarni. Staðan sé hins vegar fjarri því að vera ákjósanleg. Glænýr útreikningur bendir til þess að það þurfi að hækka þessa fjárhæð í 7,8 milljarða og það þurfi þá fjárhæð til ársins 2050.

„Ég mun beita mér fyrir því að árleg fjárhæð verði hækkuð til samræmis við þessa nýju útreikninga. Sem stendur erum við að leggja gríðarlega mikið á bæði vinnuaflið og fyrirtækin í landinu. Í fyrsta lagi þarf vinnumarkaðurinn að standa undir lífeyri þeirra sem ekki náðu að byggja hann upp yfir starfsævina. Sumir lögðu ekki fyrir, aðrir voru ekki á vinnumarkaði og enn aðrir áttu sparnað sem fuðraði upp á verðbólguárunum eða ávaxtaðist ekki almennilega. Í þetta fara 80 milljarðar árlega.

Í öðru lagi erum við að horfa upp á lífeyrisréttindi sem voru ekki fjármögnuð. Þar er þetta rúmlega 700 milljarða króna gat LSR-B sem þarf að loka. Þar fékk fólk útgefin réttindi án þess að fjármögnun væri til staðar. Í þriðja lagi er þessi kynslóð að taka á sig að greiða 15,5% í lífeyrissjóð í þeim tilgangi að ekki neinn þurfi að taka til eftir okkur líkt og lendir á okkur að hreinsa upp eftir aðra. Það er gríðarlega mikið lagt á vinnumarkaðinn, einstaklinga og fyrirtæki, að taka á sig þessi þrjú ólíku hlutverk og það er ekki skrítið að fólk finni fyrir því,“ segir Bjarni.

„Þrátt fyrir allt skulum við hafa það hugfast að í stóru myndinni hafa eldri kynslóðir skilað betra búi en þær tóku við. Jafnvel þótt reikningi lífskjaranna hafi að hluta verið velt á framtíðar kynslóðir og veðjað á að hagvöxturinn myndi leysa málin.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .