Leggja á sameinuðu félagi Kynnisferða og Eldeyjar til 800 milljónir króna í nýtt hlutafé til að styrkja fjárhagsstöðu félaganna. Heimsfaraldurinn hefur valdið félögunum þungum búsifjum en með sameiningunni verður til eitt stærsta fyrirtæki íslenskrar ferðaþjónustu.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir áreiðanleikakönnun vegna sameiningarinnar lokið og unnið sé að gerð kaupsamnings sem vonandi verði undirritaður á næstu vikum. Gangi það eftir verði samruninn tilkynntur formlega til Samkeppniseftirlitsins sem þarf að samþykkja hann áður en félögin geta runnið í eina sæng.

„Ég held að það mikilvægasta nú sé að gera félögin sveigjanleg þannig að þau geti beygt sig niður í ekki neitt en líka verið fljót að vaxa. Með sameiningunni búum við til félag með mjög breitt vöruframboð þannig að við getum náð til viðskiptavina frá því að þeir lenda í Keflavík og þar til þeir fara af landi brott á ný.“

Hluthafar Kynnisferða með meirihluta

Virði beggja félaga hefur lækkað um tugi prósenta. Verðmat á Kynnisferðum var lækkað um 58% á síðasta ári, úr 2,8 milljörðum króna í tæplega 1,2 milljarða króna í ársreikningi næststærsta hluthafa Kynnisferða.

Hlutafé Eldeyjar var fært niður um helming í byrjun sumars, úr 3 milljörðum króna í 1,5 milljarða króna.  Eldey bókfærði 355 milljóna króna tap árið 2018 og ríflega milljarðs króna tap á síðasta ári, að mestu vegna niðurfærslu á verðmæti fjárfestinga félagsins.

Í samrunanum er miðað við að hluthafar Eldeyjar eignist 35% í sameinuðu félagi og hluthafar Kynnisferða 65%. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar Eldeyjar leggi til um 500 milljónir króna en hluthafar Kynnisferða um 300 milljónir króna. Nýta á hlutafjáraukningu Eldeyjar til að styrkja rekstur félaganna sem fjárfest hefur verið í.

Upphaflega stóð til að Eldey færi með ríflega 50% hlut í sameinuðu félagi en eignarhlutföllin breyttust eftir að ákveðið var að Norðursigling, sem Eldey á ríflega 40% hlut í, stæði utan við samrunann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .