Hutafé Selbakka ehf., sem rekur stærsta kúabú landsins á bænum Flatey á Mýrum í AusturSkaftafellssýslu, var aukið úr 170 milljónum króna í 970 milljónir í júní. Aukningin var gerð á nafnverðinu einni krónu og því lagðar 800 milljónir króna í félagið. Fjósið á Flatey er um 4.700 fermetrar að stærð, 106 metrar á lengdina og 39 metrar á breiddina, þar sem um 200 kýr eru mjólkandi. Auk búrekstursins er Selbakki með veitingastað sem var opnaður í júlí 2018 en félagið er alfarið í eigu útgerðarinnar SkinneyÞinganes hf.

Aðspurður segir Aðalsteinn Ingólfsson, stjórnarformaður Selbakka og forstjóri Skinneyjar-Þinganess, hlutafjáraukninguna koma til sökum þess að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt. Fjármagnið hafi því verið nýtt til að greiða niður skuldir fremur en að ráðast í framkvæmdir. Skinney-Þinganes keypti búið árið 2013.

Mikill taprekstur frá stofnun

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 kemur fram að eigið fé þess var neikvætt um 262 milljónir króna. Heildareignir námu rúmlega 1,5 milljörðum á meðan skuldir voru 1,8 milljarðar. Þar af var rúmlega 1,1 milljarðs skuld við Skinney-Þinganes, móðurfélag Selbakka. Tap rekstursins fyrir árið 2018 nam 105 milljónum samanborið við 123 milljónir árið 2017 en samanlagt tap frá stofnun nemur 411 milljónum.

Taprekstur félagsins má ef til vill skýra að einhverju leyti vegna vaxtar félagsins. Við stofnun félagsins 2014 námu eignir þess tæplega 500 milljónum en ríflega 1,5 milljörðum árið 2018. Aðalsteinn segir að tap rekstursins megi fyrst og fremst rekja til þess að verð á umframmjólk hafi fallið, sú mjólk sem framleidd er umfram kvóta hvers og eins framleiðanda.

Samhliða því að lágt verð fáist fyrir umframmjólk segir hann að kvótamarkaður fyrir mjólk hafi verið nokkuð óvirkur. Aðalsteinn segir að verið sé að skoða hvaða leiðir eru færar til að bregðast við stöðu rekstursins en hann vildi ekki tjá sig nánar um málið.

Ríkisstuðningur ríkulegur og framseljanlegur

Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði, segir að rekstur kúabúa sé mjög misjafn. Þeir sem hafi fengið kvóta sinn gefinn eða framseldan af ættmennum séu í sterkri stöðu. Hins vegar beri þeir sem kaupa sig inn í reksturinn mikinn fjármagnskostnað, hlutfallslega meiri en í sambærilegum rekstri í nágrannalöndum. Að auki hafa erlendar rannsóknir sýnt að bændur eru almennt tilbúnir til þess að vinna fyrir lægri laun en vinnuframlag gefur til kynna.