Greiningardeild Arion banka fjallar á áhugaverðan hátt um jólaverslun í markaðspunktum sínum í dag út frá kenningum hagfræðinnar um allratap.

Eins og segir í greiningunni þá er allratapi best lýst sem glötuðum ábata í hagkerfinu. Þegar einstkalingar reyna að finna gjafir handa vinum og vandamönnum þá myndast slíkt allratap. Dæmi er tekið þar sem kona kaupir peysu á eiginmann sinn fyrir tíu þúsund krónur en manninum er ekki jafn hrifinn af peysunni og hefði verið tilbúinn til að greiða sjálfur í allra mesta lagi átta þúsund krónur fyrir peysuna. Þannig myndast allratap upp á tvö þúsund krónur.

Fyrstur til að gera tilraun til að meta allratap jóalverslunar var Joel Waldfogel, kennari við Yale háskóla fyrir um 20 árum síðan í grein sinni, The Deadweight Loss of Christmas . Eins og segir í greiningunni þá komst hann að því að allratapið ræðst bæði af því hversu vel gefandinn er upplýstur um smekk þiggjandans og því hversu vel þiggjandinn er upplýstur um eigin smekk. Ef þiggjandinn veit t.d. lítið um vöruúrval á markaðnum, og gefandinn þekkir viðkomandi vel, þá er hugsanlegt að honum takist að velja eitthvað sem þiggjandinn vissi ekki einu sinni að hann langaði í. Þá er þiggjandinn betur settur með gjöfina en samsvarandi upphæð í reiðufé, annars ekki. Svo virðist sem sjaldgæft sé að svo vel takist upp. Mökum tekst yfirleitt best að velja gjafir, en öfum/ömmum og fjarskyldum ættingjum verst.

Samkvæmt niðurstöðum Waldfogel er virði hlutanna í huga þiggjanda að jafnaði 10-30% minni en verðið sem gefandi hefði greitt eftir að tekið er tillit til skipta. Rannsóknarsetur verslunarinnar metur jólaverslun í ár tæpa 14 milljarða hér á landi og telur greiningardeildin sérvöruhluta þeirra upphæðar um 8 milljarða króna. Miðað við þetta myndi hóflegt mat á allratapi vegna jólagjafakaupa nema um 800 milljónum hér á landi í ár.