Iceland Express útskrifaði sl. föstudag 22 flugliða sem stundað hafa stíft nýliðanám hjá félaginu síðustu mánuði.

Þeir hefja störf fyrir Iceland Express um miðjan maí  þegar sumaráætlun félagsins hefst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.

Um það bil 800 umsóknir bárust þegar auglýst var eftir nýliðum í vetur en einungis 22 nýjar stöður voru lausar.

„Nýliðanámið hjá Iceland Express er umfangsmikið enda þurfa flugliðar að geta brugðist við ýmsum aðstæðum sem upp geta komið í háloftunum. Mesta áherslan er lögð á þætti sem tengjast öryggi um borð, notkun öryggisbúnaðar flugvélanna, skyndihjálp og þar fram eftir götunum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur jafnframt fram að Iceland Express á í góðu samstarfi við sérsveit Ríkislögreglustjóra sem þjálfar flugliðana í að afstýra mögulegum vandræðum í flugi.

„Einnig er farið vandlega í allt sem tengist hefðbundnari þjónustu og umönnun farþega,“ segir í tilkynningunni.

Dúxinn í flugliðanáminu að þessu sinni var Þorleifur Thorlacius en þrír piltar og nítján stúlkur útskrifuðust úr flugliðanámi Iceland Express að þessu sinni.