Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2008 var 174.000 manns og fjölgaði um 1.200 frá sama tíma ári áður.

Á vinnumarkaði voru alls 178.100 manns sem jafngildir 81,0% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka karla var 85,5% og kvenna 76,1%. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en þar voru í morgun birtar tölur um atvinnuþátttöku.

Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

Á fyrsta ársfjórðungi 2007 voru alls 176.300 á vinnumarkaði og atvinnuþátttaka mældist 82,2%. Atvinnuþátttaka karla var 86,2% og kvenna 77,9%.