Hagvöxtur mældist 8,1% í Kína í fyrra, en hagfræðingar höfðu spáð sambærilegum hagvexti. Kínverska ríkið stefndi að 6% hagvexti. Þetta kemur fram í frétt hjá CNN .

Talið er að kínverska hagkerfið muni ganga í gegnum erfiðleika á þessu ári, en seðlabanki Kína lækkaði nýverið meginvexti bankans í fyrsta skipti síðan í apríl 2020, til að örva hagkerfið. Hagvöxtur var einungis 4% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, sem er minnsti hagvöxtur á einum ársfjórðungi í eitt og hálft ár.

Sérfræðingar telja að einkaneyslan muni fara hægt af stað á árinu vegna harðra samkomutakmarkana. Louis Kuijs, hagfræðingur hjá Oxford telur það ólíklegt að kínversk stjórnvöld muni draga úr hörðum sóttvarnaraðgerðum fyrr en seint á árinu.

Fasteignamarkaðurinn í Kína er afar brothættur þessa stundina, en fasteignafélagið Evergrande hefur ekki náð að greiða niður himinháar skuldir sínar og hafa viðskipti með bréf félagsins meðal annars verið stöðvuð um tíma, eins og Viðskipablaðið greindi frá. Nýlega samdi félagið við lánardrottna um greiðslufrest á skuldum, líkt og Reuters fjallaði um. Það er ljóst að fall Evergrande hefði gríðarlega neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn í Kína, bæði á eigendur fasteigna en einnig á fjármálakerfið í heild sinni.